21.12.2016 00:13

Auglýsing. Endilega klikka á

21.04.2016 22:27

Bitið á í Helguvík

Bíttá Helvítið þitt hefur í samvinnu við Sigurberg L. Wollenkopf og Kvikland ehf sent frá sér fjórða þáttinn í veiðiþáttaröðinni Bitið á. 

Farsælt samstarf hefur verið milli Sigurbergs L. Wollenkopf og Bíttá Helvítið Þitt til þessa en til að ná fram enn vandaðri þáttargerð hefur félagið einnig leitað á náðir Kviklands ehf sem sá megnið af kvikmyndatöku þessa þáttar.


Að þessu sinni er veiðistaðurinn við Helguvík, iðnaðar og náttúruparadís Keflvíkinga. 

Sérstakur sérfræðingur að þessu sinn er Hlynur Gauti Sigurðsson en hann gjörþekkir svæðið eins og hnakkadrambið á sér.

Góða skemmtun.

19.04.2015 21:06

Á Skötuveiðum á Suðurnesjum


Framkvæmdastjórinn með vænan þorsk í pottinn

Framkvæmdastjóri félagsins ásamt hugsanlegum nýlim, Emil Ellegaard fengu sér að veiða á suðurnesjunum á dögunum. Reyndis þetta hin mesta happaferð því 25 kg af fiski voru dregin heim.
Þó eru stærst tíðindin að reglan sem skrifuð hefur verið síðustu þrjú ár að Framkvæmdastjórinn veiði eina nýja tegund á hverju vori stóð ekki á sér þetta vorið. 


Þessar Tindabikkjur enduðu ekki í kös þetta árið

Tvær skötur voru dregnar á land í þetta sinnið og komu þær skemmtilega á óvart. Tegundagreining leiddi af sér skötu af gerðinni Tindabikkja. Framkvæmdastjórinn hringdi umsvifalaust í eiginkonu sína sem sat heima að spinna og spurði hvort ekki væri snjallt að leggja hana í kös á svölunum fram að þorláksmessu. Svarið var nei. Skötunum var því sleppt.


Sá guli er sólginn í kókómjólk. 

Talsvert var um kola eins og áður fyrr en bæði veiddist sandkoli og skarkoli. Skemmtilega kom hins vegar á óvart þorskveiðin en þeir félagar Framkvæmdastjórinn og Hr. Ellegaard drógu á land 15 þorska sem vtaskuld var öllum lógað. Örfáum kolum var sleppt sökum vanskapnaðar og smæðar.
Beitan sem reyndist best að þessu sinni var innfluttur smokkfiskur frá Kína keyptur í Krónunni Grafarholti. Makríll reyndist ekki vel sem þorskbeita að þessu sinni enda orðinn gamall og illa lyktandi.

Allur fiskur er fullunnin í vinnslu Framkvæmdastjórans

Að sjálfsögðu var allur aflinn verkaður og verður nýttur til manneldis. Til greina kemur að herða hluta aflans. Nánari grein um herðingu fisks mun koma síðar með ýtarlegum leiðbeiningum þess efnis.


Emil Ellegaard gerði harða atlögu að þorsktofninum.

Aðeildarumsókn hugsanlegs nýlims Emils Ellegaard hefur verið tekin til skoðunar og verður rædd á næsta stjórnarfundi félagsins. Emil er þeim kostum gæddur að vera með erlent ættarnafn ásamt því að borða fisk. Ekki er vitað til að nokkur annar félagsmaður beri slíka kosti saman.

Framkvæmdastjórinn og Emil Ellegaard taka "Selfie" í tilefni dagsins

Lokatölur:
Þorskur: 15 stykki, 22kg
Skarkoli: 5 stykki, 2,5kg
Sandkoli: 2 stykki, 0,5kg
Skötur 2 stykki, 2Kg (sleppt) 

Uppfærður listi yfir stangveiddar tegundir Framkvæmdastjóra frá landi í sjó. 
 1. Sjóbirtingur
 2. Bleikja
 3. Þorskur
 4. Ufsi
 5. Marhnútur
 6. Ýsa
 7. Lýsa
 8. Sandkoli
 9. Rauðspretta
 10. Steinbítur
 11. Tindabikkja

07.07.2014 19:12

LPF* á Flateyjarbryggju

Framkvæmdastjórinn ásamt KO Kid reyndu með sér í glænýrri veiðiaðferð sem svipar til LRF nema R-inu er skipt út fyrir P. Rock skipt út fyrir Peer. Grjóti skipt út fyrir bryggju.

Látum myndirnar tala...

*Light Peer Fishing - Ný veiðiaðferð

16.06.2014 14:45

Ufsapartý á Svalbarðseyri

4 punda ferlíki tekið á gyðinginn. Af sjálfsögðu fékk ufsinn líf því ekki viljum við útrýma þessum merka baráttujaxli úr íslenskri náttúru.

10.06.2014 20:47

Sjálfbærni suður með sjó


Framkvæmdastjórinn berst fyrir lífi sínu gegn steinbítnum.

Framkvæmdastjórinn og frú fengu sér að veiða í sjónum. Sjórinn er fyrir þá sem borða matinn sinn en leika sér ekki að honum. Framkvæmdastjórinn dró á land fjórar rauðsprettur, tvo smáufsa, einn smáþyrskling og stærðarinnar steinbít. Rauðsprettur og steinbítur fara í soðið. Smáufsinn og smáþyrskling var brottkastað sökum neðanmálsstærðar. Nú hefur Framkvæmdastjórinn loks veitt steinbít frá landi og er stefnan sett á einhverja aðra exótíska tegund næst. Framkvæmdastjórafrúin dáðist af eiginmanni sínum við veiðar og veitti aðstoð við löndun steinbíts. Auk þess tók hún myndir. Hafi hún mikla þökk fyrir sú þokkadís.

Listi yfir stangveiddar tegundir Framkvæmdastjóra frá landi í sjó. Unnið er í að lengja hann.
 1. Sjóbirtingur
 2. Bleikja
 3. Þorskur
 4. Ufsi
 5. Marhnútur
 6. Ýsa
 7. Lýsa
 8. Sandkoli
 9. Rauðspretta
 10. Steinbítur

01.02.2014 15:20

Heimagerður Eskfirskur harðfiskur.

Harðfiskur er gott og hollt fæði en er þeim anmörkum gæddur að vera í dýrari kantinum. Er það komið til sökum þess að 10kg af fiski þarf til að útbúa 1kg af harðfiski. Bíttá Helvítið þitt sem ávallt hefur hagsýni að leiðarljósi hefur fundið lausn á þessu fjárhagslega vandamáli harðfiskfíkla. Hér kemur uppskrift af Eskfirskum harðfiski eins og þeim sem við höfum öll gúffað í okkur á ferðalögum með tilheyrandi fjárhagstjóni.

1) Finnið sjó og veiðið fisk (í þessu tilfelli var það ýsa).
2) Takið 1 líter af sjó með ykkur heim (Ef ekki þá þarf 2-3 Msk af salti í líter af vatni til að búa til gerfisjó).
3) Skerið fiskinn í 0,5 - 1 cm þykkar ræmur.
4) Látið niðurskorinn fiskinn í sjóinn/gerfisjóinn í eina mínútu.
5) Fjarlægið fiskinn úr sjónum og raðið á ofngrind.
6) Setjið ofngrindina í blástursofn og stillið á 60°C og hafið góða rifu á ofnhurðinni svo rakinn úr fisknum komist út.
7) Neytist þegar fiskur er orðinn þurr í gegn (Tekur nokkra klukkutíma). 

27.09.2013 21:16

Myndband náðist af veiðidónum í Grenlæk

Rannsóknarblaðamenn Bíttá Helvítið er sem fyrri daginn með puttann á púlsinum og þegar fréttist af veiðidónum í Grenlæk á dögunum hringdi Bíttá Helvítið þitt í sína menn hjá Anonymous sem voru ekki lengi að hakka sig inn á snjallsíma eins veiðidónans og ná þessum myndum af veiðidónunum við verknaðinn.
Myndbandið verður aðeins tekið niður verði aflanum hent eins og gert er ráð fyrir þegar Veiða/Henda aðferðinni er beitt en Veiða/Henda er nýjasta tíska. 
Athugið að örnefnum hefur verið breytt til að koma í veg fyrir málsóknir.

26.08.2013 09:13

Áhugaverð grein á DV - Greinileg bylgja með skoðunum Bíttá Helvítið þitt

Hér má finna áhugaverða grein um þá ónáttúru að veiða og sleppa sem Bíttá Helvítið þitt hefur barist gegn frá stofnun félagsins.

http://www.dv.is/frettir/2013/8/25/onattura-ad-veida-og-sleppa/

Enn og aftur má sjá að kommentakerfi DV lýsir vilja þjóðarinnar vel og er greinilegt að þjóðin er á máli Bíttá Helvítið þitt.

Nú þurfum við bara að taka höndum saman og sannfæra þjóina um ágæti veiða/henda aðferðarinnar.

 

21.07.2013 20:45

Makrílmanía II - Garður

20.07.2013 20:38

Heimir Hjartaknúsari Kærleiksbjörn innlimaður í félagið

A dögunum varð sú skemmtilega nýbreytni í félaginu að nýr limur var innlimaður í félagið. Þess má geta að það hefur ekki gerst í fjöldamargar vikur og/eða mánuði eða ár.

 

Heimir tók inntökuprófin hvar annars staðar en við Hraunsvatn þar sem hann sló Framkvæmdastjóranum ref fyrir rass með fiskni sinni.

 

Heimir Hjartaknúsari Kærleiksbjörn er þessi nýji félagi og vill Bíttá Helvítið þitt bjóða hann sérstaklega velkominn í félagið þar sem hann er fyrsti kærleiksbjörninn sem félagið hefur átt.

Rök fyrir innlimingu:

Í annari grein laga félagsins segir:

"...til að fá inngöngu þarf til þess fyrsta að eiga nógu ódýran veiðibúnað eða úr sér genginn

Heimir Hjartaknúsari Kærleiksbjörn uppfyllir það fullkomnlega þar sem hans búnaður er jafnvel úr sér gengnasti veiðibúnaður nokkurs félagsmanns. Sjá mynd A.

 

Mynd A: Eins og sjá má er búnaður Heimis afar forn

 

Enn fremur segir í 2. grein:

"...fyrir möguleika á nýlimun er að leysa þraut sem viðkomandi stjórnarlimur leggur fyrir hann. "

Heimir Hjartaknúsari Kærleiksbjörn uppfyllti það skilyrði þegar honum tókst að veiða steinbít í Hraunsvatni. Sjá mynd B.

 

Mynd B: Heimir og steinbíturinn

 

Að lokum segir í 2. grein:

"Síðasta skilyrði innlimunar er að standast erfitt sálfræðipróf sem stjórnin leggur fyrir verðandi nýlim."

Niðurstöður úr þessu sálfræðiprófi voru að berast frá sálfræðingi félagsins og hljóma svona:

"Heimir  Hjartaknúsari Kærleiksbjörn er eitt albesta eintak sem komið hefur til mín í sálfræðipróf vegna umsóknar um inngöngu í félagið. Hann er hjartahlýr og vill engum illt nema veiðidýrum þeim er félagið sækist eftir. Því tel ég að hann yrði fullkomin viðbót í félagsskapinn"

 

Heimir var auðvitað kátur við innlimunarfréttirnar og knúsaði Framkvæmdastjórann að launum

 

Vill alráð stjórn Bíttá Helvítið þitt því bjóða Heimi Hjartaknúsara Kærleiksbjörn velkominn í félagið og mælst er til þess að aðrir félagsmenn geri slíkt hið sama að öðrum kosti er brottrekstri hótað.

Myndir úr Hraunsvatns og Þverbrekkuvatnsferð Heimis og Framkvæmdastjórans

27.06.2013 00:02

Bitið á... í Eyjafirði

Þar kom að því. Sigurbergur L. Wollenkopf kvikmyndagerðarmaður hefur lokið gerð þriðja þáttarins í sjónvarpsþáttaröðinni Bitið á.

Að þessu sinni fylgjumst við með Stjórnarformanninum og Framkvæmdastjóranum við strandveiðar í Eyjafirði.

Bíttá Helvítið þitt vill þakka Sigurbergi fyrir frábærlega unnin þátt og er sem stendur nú í samningaviðræðum um áframhaldandi samstarf.

Gjörðið svo vel.

Bitið á... í Eyjafirði

13.06.2013 02:31

Veitt og hent I - 2013

Framkvæmdastjórinn alsæll með feng sinn

 

Framkvæmdastjórinn fékk sér að veiða í fyrsta sinn á þessu sumri í boði Heimis og Jónasar. Skemmst er frá því að segja að sökum stöðugrar notkunnar rauðra dropa og Shakespearska teleskópískra stanga voru rifnir upp þrír vænir silungar að urriðagerð. Allir tóku þeir rauðan dropa og allir vildu á land nema einn. Sá hefur eflaust verið sleppiseiði.

 

Aflanum var að sjálfsögðu hent eins og lög gera ráð fyrir

 

Nýtt var nýjasta tíska í veiðmálum og fisk slátrað, hann slógdreginn og svo hent eins og gert er þegar stundaður er hinn nýji veiðiskapur sem kallaður er "Veiða/Henda". Þessi tegund veiðiskapar hefur rutt sér mikils til rúms síðustu misseri eftir að Bíttá Helvítið þitt tók þessa tegund veiðiskapar upp á sína arma.

 

Jónas veiddi aðeins einn enda brúkaði hann ekki Rauðan Dropa

 

Jónas fékk einn og slátraði honum og var mælst til þess af Framkvæmdastjóra félagsins að aflanum yrði svo hent í næstu sorptunnu. Ekki er vitað hvort hann hafi orðið við þeirri bón.

 

Heimir veiddi og sleppti einum óvart en hann brúkar antík veiðihjól

 

Heimir fékk einn og ætlaði að slátra honum og henda en missti hann út í áður en náðist að deyða urriðan á afar mannúðlegan hátt.

 

Myndir

Flettingar í dag: 8
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 40
Gestir í gær: 15
Samtals flettingar: 1540669
Samtals gestir: 213174
Tölur uppfærðar: 3.4.2020 01:14:19

Vafraðu um

Tenglar

This page in english